Aðalfundur Þróunarfélags Snæfellinga var haldinn föstudaginn 7. Júní s.l. á Hótel Hellissandi. Auk venjulegra aðalfundarstarfa flutti formaður stjórnar Halldór Árnason skýrslu um verkefni félagsins.

Sérstakir gestir fundarins voru Haukur Már Gestsson hagfræðingur Íslenska Sjávarklasans sem kynnti starfsemi Sjávarklasans, Arnljótur Bjarki Bergsson stöðvarstjóri Matís á Sauðárkróki sem kynnti helstu verkefni Matís og samstarf Matís og Þróunarfélags Snæfellinga m.a. vegna IPA-styrkja og Georg Andersen framkvæmdastjóri hjá Valafelli hf. í Ólafsvík sem fjallaði um tækifæri fyrirtækja á Snæfellsnesi sem tengjast svokölluðu Klasasamstarfi, en hann hefur í samstarfi við stjórn og framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins undirbúið slíkt samstarf um tiltekin nýsköpunarverkefni.

Þróunarfélag Snæfellinga var stofnað 7. nóvember 2011 og var því árið 2012 fyrsta heila starfsár félagsins. Tilgangur með stofnun félagsins var að bæta búsetuskilyrði með því að stuðla að framþróun með auknu samstarfi atvinnufyrirtækja, eflingu atvinnulífs og samkeppnishæfni byggðarlaga á Snæfellsnesi. Í upphafi starfs félagsins var efnt til umfangsmikillar vinnu við að móta „Framtíðarsýn og stefnumótun Snæfellinga“ en að því verkefni komu fimmtíu heimamenn með ráðgjöfum frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofu, Atvinnuráðgjöf Vesturlands og ráðgjöfum frá Netspor-rekstrarráðgjöf. Þau gögn eru aðgengileg á heimasíðu Þróunarfélagsins www.snae.is

Fram kom í skýrslu stjórnarformanns að unnið hefur verið að fjölmörgum verkefnum og efnt til funda og ráðstefna um markaðsmál og atvinnumál þar sem fjölmargir sérfræðingar fluttu fyrirlestra og sátu fyrir svörum.

Félagið mun áfram vinna í anda þeirrar „Framtíðarsýnar og stefnumörkunar“ sem mótuð var í upphafi og leggja sérstaka áherslu á samstarf við þá aðila sem vinna á grundvelli hugmyndafræði KLASASAMSTARFS. Meðal verkefna sem eru til meðferðar má nefna: Markaðsaðgerðir á Snæfellsnesi í samstarfi við Íslandsstofu og Markaðsstofu Vesturlands. Samstarf við Matís vegna vistvænna nýsköpunarverkefna við Breiðafjörð. Verkefnisstjórnun við undirbúning að stofnun og uppbyggingu próteinverksmiðju í Grundarfirði. Verkefnisstjórnun og ráðgjöf vegna Hitaveitu Eyja og Miklaholtshrepps. Samstarfsverkefni við nýtingu þörunga úr Breiðafirði undir verkefnisheitinu „Markaðsdrifin virðiskeðja sjávarþörunga“. Þróunarfélagið í samráði við Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur hvatt til þess að setja upp rannsóknarsetur við Breiðarfjörð varðandi nýtingu sjávarorku og virkjun sjávarfalla í Breiðafirði. Haldið áfram viðræðum við aðila sem hafa sýnt því áhuga að kanna nýtingu jarðvarma til þess að koma upp JARÐBÖÐUM á Snæfellsnesi og nýta við uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu. Unnið verði að kortlagningu heitra og kaldra linda sem mætti nýta til fiskeldis. Haldið verði áfram stuðningi við Hollvinasamtök þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og stutt við hugmyndir um afmörkun Jarðvangs Ljósufjalla (Geopark). Sérstök áhersla verði lögð á Klasasamstarf atvinnugreina.

Snæfellsnesið hefur alla burði til að vera eftirsóknarvert svæði til atvinnusköpunar og búsetu. Með því að atvinnutækifærum fjölgi og búsetuskilyrðin batni getur svæðið boðið íbúum sínum fjölbreyttari möguleika og betri afkomu. Störfin koma sjaldnast af sjálfu sér og því þarf að leita að og finna tækifærin sem er svo víða að finna á Snæfellsnesi. Það þarf áræði og kjark til að þróa hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Brautryðjendur og framtaksamt fólk upplifir sterkt gleði og stolt við hvern áfangasigur sem vinnst við að skapa eitthvað nýtt sem kemur því sjálfu og samborgurunum til góða.

Til að slík viðfangsefni geti orðið að veruleika þarf í hverju tilviki einhvern eða einhverja sem eru tilbúnir til þess að hafa frumkvæðið og leiða þá vinnu. Þróunarfélag Snæfellinga hvetur framtaksama einstaklinga til þess að stíga fram og nýta tækifærin.

Í stjórn Þróunarfélags Snæfellinga voru kjörin: Halldór Árnason hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins formaður, Runólfur Guðmundsson hjá G. Runólfssyni hf. Grundarfirði, Georg Andersen hjá Valafelli hf. Ólafsvík, Kristjana Hermannsdóttir bæjarfulltrúi Snæfellsbæ og Pétur Ágústsson hjá Sæferðum hf. Stykkishólmi. Varamenn voru kjörin Rósa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi Grundarfirði, Sigríður Finsen hagfræðingur Grundarfirði og Skarphéðinn Berg Steinarsson hjá Sjávarborg ehf. Stykkishólmi.

Posted in: Fréttir     (0 comments)

Deila