Ágætu lesendur heimasíðu Þróunarfélags Snæfellinga.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull verður stöðugt mikilvægari þáttur í ferðaþjónustu á Snæfellsnesinu öllu. Hollvinasamtök þjóðgarðsins – Vinir Snæfellsjökuls voru stofnuð í þeim tilgangi að standa vörð um uppbyggingu í þjóðgarðinum og aðstoða stjórnendur og starfsmenn við framþróun þessa merkilega verkefnis. Tilgangurinn með stofnun þjóðgarðs er að vernda en um leið nýta þessa náttúruperlu sem þjóðgarðssvæðið er. Það þarf að gera í þágu íbúanna á Snæfellsnesi og þeirra ferðamanna sem vilja fræðast um náttúrufar og menningarminjar, en  jafnframt njóta útivistar á svæðinu. Fræðsla um jarðfræði svæðisins á að gegna lykilhlutverki hjá þeim sem sinna leiðsögn á Snæfellsnesi.

Hollvinasamtökin eru í einskonar fóstri hjá Þróunarfélagi Snæfellinga.

Til þess að minna á mikilvæg verkefni okkar innan Hollvinasamtakanna set ég hér upp nokkur lykilatriði og verkefni sem hafa komið fram á fundum okkar og í viðræðum mínum við ýmsa velunnara þjóðgarðsins. Ég átti fund með umhverfis-og auðlindaráðherra fyrir stuttu og tók þá upp málefni Hollvinasamtakanna og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og kynnti sérstaklega nokkur þeirra atriða sem eru hér á þessum lista. Ekki er hér á ferðinni vísindaleg umfjöllun heldur sett fram minnisatriði fyrir þá sem eru að leita leiða til þess að efla starfið í Þjóðgarðinum.

Mikilvægir þættir sem varða Þjóðgarðinn Snæfellsjökul

 1. Á fyrsta stjórnarfundi Hollvinasamtakanna var rætt um að  fá „Logo“ fyrir samtökin.  Það hefur verið sett upp og má sjá það á heimasíðu Þróunarfélagsins  www.snae.is Þar má einnig skrá sig í samtökin Vinir Snæfellsjökuls og er árgjaldið kr. 5.000,-
 2. Halda ætti málþing um þjóðgarðinn.
 3. Efna til Ljósmyndasamkeppni þar sem væru myndir teknar í þjóðgarðinum.
 4. Ræða þarf rækilega um fjáröflun fyrir samtökin.
 5. Leita eftir styrkjum frá sveitarfélögunum.
 6. Leita eftir styrkjum frá atvinnufyrirtækjum. Þar má nefna; stóriðju, banka, tryggingafélög, olíufélög, útflutningsfélög, lyfjafyrirtæki, Orkusöluna, Rarik, Landsnet, Landsvirkjun, Icelandair og önnur stór ferðaþjónustufélög, Eimskip og Samskip.
 7. Leggja þarf áherslu á samstarf þjóðgarðsins og ferðaþjónustuaðila og eiga samstarf við Íslandsstofu og aðra sem stunda landkynningu.
 8. Skipuleggja þarf leiðsögn í Þjóðgarðinum og þjónustu allt árið.
 9. Efla staðbundna leiðsögn og kynningu á búsetusögunni á svæðinu.
 10. Er mögulegt að láta setja upp leiðsögu um þjóðgarðinn  sem væri hægt að kaupa í símann sinn af netinu á mörgum tungumálum?
 11. Hvetja ætti  skóla til þess að  taki upp fræðslu fyrir heimaleiðsögumenn sem sérhæfi sig í sögu, jarðfræði og umhverfi á Snæfellsnesi og þá einkum í þjóðgarðinum.
 12. Verndaráætlun þarf að fylgja eftir með því að landslagshönnuðir verði fengnir til þess að skipuleggja alla þætti þjónustu innan þjóðgarðsins svo sem bílastæði, skilti, gönguleiðir. Allt þarf það að tengjast þjóðgarðsmiðstöðinni sem þarf að gera áætlun um að rísi sem fyrst.
 13. Láta vinna rannsóknir á svæðinu og leggja áherslu á verndun en jafnframt nýtingu þess fyrir ferðamenn og þá sem hafa áhuga á að veita þjónustu við ferðamenn svo sem að skipuleggja ferðir um þjóðgarðinn.
 14. Hvetja til rannsókna á ströndinni, fuglalífi og gróðurfari í Þjóðgarðinum.
 15. Áningastaðir kortlagðir. Bæta aðstöðu á útsýnisstöðum þar sem mikið er ljósmyndað.
 16. Nauðsynleg þjónusta við Vatnshelli þarf að verða til svo sem stærri bílastæði, kynningaraðstaða og snyrtingar. Vatnshellir er einstakur og er mikill og vaxandi segull.
 17. Leggja áherslu á að dreifa álagi innan svæðisins og láta vinna þolmarkagreiningu.
 18. Gera þarf rannsókn á því hverjir eru að koma í þjóðgarðinn.
 19. Gera áætlun um hvernig megi auka tekjur af þjónustu í Þjóðgarðinum. Það á að selja alla þjónustu í þjóðgarðinum.
 20. Gera þarf greiningu á því hvernig megi lengja opnunartíma og þjónustu.
 21. Gera þarf athugun á skýrslu Vegagerðar o.fl. um FERÐAMANNALEIÐINA Öndverðarnes—Arnarstapi. Mjög áhugaverð skýrsla.
 22. Mikil óvissa ríkir um framtíð aðstöðunnar á Gufuskálum. Innanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið haf losað Landsbjörgu undan leigusamningi vegna Björgunarskólans. Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu verður leitað heimildar í fjárlögum næsta árs til að selja Gufuskála, þessa eign, sem er innan þjóðgarðsins.
 23. Í gangi eru mjög merkilegar  fornleifarannsóknir á Gufuskálum.
 24. Fornleifastofnun Íslands hefur leitað til Þróunarfélagsins eftir samtarfi um að Fornleifaskólinn fái aðstöðu á Gufuskálum.
 25. Áform um uppbyggingu á Malarifi eru umdeild. Margir óttast að fjármunir sem þarf til að byggja upp þar muni skerða möguleikana á því að framkvæmdir hefjist við þjóðgarðsmiðstöðina á Hellissandi.
 26. Koma þarf á formlegu og öflugu samstarfi þjóðgarðsins og stofnana á Snæfellsnesi sem vinna að rannsóknum, safna og menningarmálum.
 27. Þjóðgarðsmiðstöðin þarf að rísa.
 28. Kynna þarf lykilfólki í „kerfinu“ Þjóðgarðinn og  Hollvinasamtökin.

Læt þetta duga að sinni en gott væri að fá ábendingar um efni þessa minnislista.

Kveðja,

Sturla Böðvarsson
Framkvæmdastjóri Þróunarfélags Snæfellinga ehf.
Ásklif 20, 340 Stykkishólmur
Sími: 863-8888 /438-1274/562-4965
sturla@sturla.is

Posted in: Fréttir     (0 comments)

Deila