Lög samtakanna VINA SNÆFELLSJÖKULS

Lög samtakanna VINA SNÆFELLSJÖKULS – hollvinasamtök Þjóðgarðsins Snæfellsjökull.

I. kafli
Nafn og tilgangur

1. gr.
Samtökin heita VINIR SNÆFELLSJÖKULS. Samtökin eru hollvinasamtök þjóðgarðsins Snæfellsjökull sem var stofnaður 28. Júní 2001.

2. gr.
Heimili samtakanna og varnarþing er á skrifstofu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, Klettsbúð 7, 360 Hellissandi.

Stjórn samtakanna eins og hún er skipuð á hverjum tíma skal sjá til þess að heimili samtakanna sé rétt skráð.

3. gr.
Samtökin eru frjáls félagasamtök einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Hollvinir Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sækjast eftir samstarfi í samræmi við tilgang og hlutverk sitt við önnur félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga sem vinna að sömu eða hliðstæðum markmiðum.

4. gr.
Hlutverk og markmið samtakanna er:

  • Að afla fjár til að styðja við rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul með það að markmiði að auka þekkingu almennings og stuðla að því að sem flestir geti notið náttúru Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og þeirra svæða sem tengjst þjógarðinum .
  • Að stuðla að uppbyggingu Þjóðgarðsins í samráði við stjórnendur þjóðgarðsins og með samstarfi við hagsmunaaðila, innlenda og erlenda.
  • Að efla fræðslu og rannsóknir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökull og næsta umhverfi hans.
  • Að styrkja verkefni sem stuðla að samspili Þjóðgarðsins Snæfellsjökull og samfélagsins.
  • Að beita áhrifum sínum til að efla samkennd um mikilvægi Þjóðgarðsins Snæfellsjökull fyrir nærliggjandi byggðir og alla landsmenn.
  • Að efla skilning umheimsins á mikilvægi Þjóðgarðsins Snæfellsjökull og einstakri náttúru hans á heimsvísu.

II. kafli
Aðild og félagsgjald

5. gr.
Aðild að samtökunum er opin öllum sem vilja vinna að hlutverki og markmiðum samtakanna enda greiði þeir árlegt félagsgjald sem ársfundur ákveður hverju sinni. Heimilt er að ákveða að árlegt félagsgjald sé mishátt, fyrir einstaklinga annars vegar og hins vegar fyrirtæki og stofnanir.

Félagsgjald skal greitt innan tveggja mánaða frá frá dagsetningu greiðslutilkynningar. Þeir einir hafa atkvæðisrétt á félagsfundum, þ.m.t. ársfundi, sem greitt hafa félagsgjald.

6. gr.
Framlög til samtakanna eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Samtökunum er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin eru kvöðum.

Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af framkvæmdastjóra en hann getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela stjórn samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.

III. kafli
Stjórn og stjórnarkosning

7. gr.
Stjórn samtakanna skipa fimm einstaklingar, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. þrír stjórnarmenn (ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi) skulu tilnefndir til þriggja ára í senn en formaður og varaformaður skulu kosnir á ársfundi úr hópi félagsmanna til þriggja ára í senn. Stjórnin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum. Enginn skal sitja lengur í stjórn en sex ár samfellt. Hverfi stjórnarmaður úr stjórn skulu þeir stjórnarmenn sem eftir sitja tilnefna nýjan stjórnarmann. Stjórn samtakanna skal endurspegla þau tengsl við atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila sem tryggi að samtökin nái markmiðum sínum.

8. gr.
Stjórnarmenn skulu ekki vera skyldir eða tengdir með þeim hætti sem fram kemur í 2. og 3. tl. 3.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (Sérstakt hæfi).

9. gr.
Kjör formanns og varaformanns fer fram við atkvæðagreiðslu á ársfundi og eru allir félagsmenn kjörgengir til stjórnarsetu. Tilkynning um framboð til formanns og varaformanns skal afhent stjórnmanni félagsins í seinasta lagi sólarhring fyrir ársfund.

IV. kafli
Ársfundur, atkvæðaréttur og endurskoðun

10. gr.
Ársfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Ársfund skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Stjórn samtakanna skal boða með tilkynningu til félagsmanna í tölvupósti eða á annan jafntryggan hátt með minnst tveggja vikna fyrirvara. Þá skal ársfundurinn jafnframt vera auglýstur opinberlega á tryggilegan hátt með minnst viku fyrirvara.

Ársfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður óháð því hve margir félagsmenn sækja fundinn.

Sérhver aðila að samtökunum fer aðeins með eitt atkvæði á fundum samtakanna, án tillits til fjárframlags, vinnuframlags, stuðnings eða styrkja til samtakanna, enda sé hann skuldlaus við samtökun, a.m.k. tveimur dögum fyrir ársfund.

Takist ekki að ljúka ársfundarstörfum á einum fundi, skal boða til framhaldsársfundar.

11. gr.
Á ársfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1. Skýrsla stjórnar.
2. Endurskoðaður ársreikningur.
3. Starfs- og rekstraráætlun næsta starfsárs.
4. Ákvörðun um árlegt félagsgjald.
1. árgjald einstaklinga
2. árgjald félaga og stofnanna
5. Lagabreytingar.
6. Stjórnarkjör, skv. 7. gr. laga samtakanna
7. Kosning endurskoðanda, skv. 13. gr. laga samtakanna.
8. Önnur mál.

12. gr.
Ársfundi er heimilt að tillögu stjórnar að velja verndara samtakanna til að minnsta kosti þriggja ára í senn. Sá einstaklingur kemur fram fyrir hönd samtakanna í umboði og eftir ákvörðun stjórnar.

13. gr.
Á ársfundi skal kjósa löggiltan endurskoðanda samtakanna. Endurskoðandi skal rannsaka reikninga samtakanna fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir ársfund. Endurskoðanda má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

V. kafli
Stjórnarfundir og stjórnarstörf

14. gr.
Stjórn samtakanna ræður málefnum þeirra og tekur allar ákvarðanir um starfsemi þeirra, meðferð og ráðstöfun fjár, kaup, lán og annað er tengist starfsemi samtakanna. Stjórn samtakanna fer með fjárreiður þeirra í samræmi við meginreglur laga þessara.

Stjórnin tekur ákvarðanir á fundum sínum og skal haldin gerðabók um alla fundi og bóka skilmerkilega þær ákvarðanir er teknar eru. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna mætir á boðaðan fund.

Einfaldur meirihluti stjórnarmanna ræður ákvörðunum stjórnar. Undirritun meirihluta stjórnar skuldbindur samtökin.

15. gr.
Formaður boðar til stjórnarfunda samtakanna og er skylt að boða tafarlaust til slíks fundar krefjist einn stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri þess. Formaður kemur fram fyrir hönd samtakanna og er forsvarsmaður þeirra á opinberum vettvangi. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Stjórnin ber ábyrgð á fjárvörslu, færslu reikninga og skýrslugerð til ársfundar, en gjaldkeri annast þann þátt fyrir hönd stjórnar. Ritari annast færslu fundargerða og varðveislu þeirra gagna og skjala er samtökunum berast.

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir en þó aldrei sjaldnar en ársfjórðungslega.

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra samtakanna og aðra starfsmenn eftir því sem þörf er á og setur þeim erindisbréf. Framkvæmdastjóri kemur fram fyrir hönd samtakanna í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart stjórn þess. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum /skoðunarmönnum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska.

Stjórnin veitir prókúru fyrir samtökin.

Stjórnin úthlutar því fé sem safnast á vegum samtakanna í samræmi við hlutverk og markmið samtakanna. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um starfshætti stjórnarinnar og úthlutun fjárframlaga til einstakra verkefna.

Stjórnarmenn fá hvorki greidd laun né þóknun í neinu formi fyrir venjuleg stjórnarstörf. Stjórn setji reglur um endurgreiðslu kostnaðar vegna ferða og gistingar í tengslum við fundi.

16. gr.
Fjármuni samtakanna skal ávaxta með tryggum hætti. Stjórninni er heimilt að fela löggiltu verðbréfafyrirtæki eða viðskiptabanka að sjá um þennan þátt en ávallt skal þó fjárfestingarstefna borin undir stjórn til samþykktar fyrirfram.

VI. kafli
Ýmis ákvæði

17. gr.
Komi fram tillaga á ársfundi um að leggja samtökin niður, skal hún því aðeins tekin til greina að hún sé samþykkt á ársfundinum af 2/3 hlutum þeirra sem á fundinum eru. Skal þá höfð um tillöguna skrifleg atkvæðagreiðsla meðal allra félagsmanna og telst hún samþykkt ef meirihluti þeirra sem greiða atkvæði samþykkir tillöguna. Stjórninni er heimilt að hafa póstkosningu meðal félagsmanna um tillöguna.

18. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á ársfundi samtakanna, enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar áður en ársfundur er auglýstur og þeirra getið í fundarboði. Á ársfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga, enda feli breytingartillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegar tillögur. Til þess að lagabreyting nái fram að ganga skal hún hljóta 2/3 greiddra atkvæða. Um leið og samþykkt er breyting á lögum þessum skal ákveðið með fundarsamþykkt hvenær breytingin tekur gildi.

Tillaga um að samtökum skuli slitið sætir sömu meðferð og tillaga til breytinga á samþykktum þessum enda hafi hún áður hlotið samþykki stjórnar. Verði samtökin lögð niður skulu eignir þeirra renna til Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og gerðarbókum skilað til Þjóðskjalasafns.