Þrátt fyrir að á Snæfellsnesi hafi verið byggt upp öflugt samfélag með trausta innviði hefur íbúaþróun ekki verið jákvæð. Um það er fjallað í umfangsmikilli skýrslu sem unnin var á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Í þeirri skýrslu er leitast við að draga upp raunsanna mynd af stöðu samfélagsins á Snæfellsnesi, sem við teljum að eigi að geta þróast með jákvæðari hætti, en verið hefur  hin síðari ár.

Hópur atvinnufyrirtækja og einstaklinga stofnaði Þróunarfélag Snæfellinga ehf.   7. nóvember s.l. Tilgangur félagins er að sporna gegn óæskilegri byggðaþróun á svæðinu með því að sameina krafta atvinnulífsins og snúa vörn í sókn.  Hluthafar eru nú sautján fyrirtæki og einstaklingar á Snæfellsnesi auk þriggja sveitarfélaga.

Hlutverk félagsins og tilgangur er að  aðstoða við að efla starfandi fyrirtæki og  koma á fót starfsemi er auki hagnað og hagsæld á starfssvæðinu. Fjölgun atvinnutækifæra og bætt afkoma heimila og fyrirtækja er alger forsenda fyrir jákvæðri íbúaþróun á Snæfellsnesi. Tilgangi félagsins  er ætlað að ná með því að kanna eða láta kanna fýsileika verkefna og tengja aðila saman um frekari aðkomu og þróun þeirra.  Markmið með eftirgreindum áformum er að fjölga atvinnutækifærum með enn frekari nýtingu náttúru auðlinda og mannauðs  svæðisins og fjölga íbúm. Slíkar aðgerðir munu auka tekjur sveitarfélaganna og styrkja þannig rekstur þeirra.

Vekefnin  sem skoðuð verða hjá  Þróunarfélagi Snæfellinga hf.  eru fjölmörg og þeim verður að  forgangsraða nánar og meta í samstarfi við þá sem málið varðar. Áhersla verður lögð á samstarf við  Atvinnuráðgjöf Vesturlands, Byggðastofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofu, Ferðamálastofu,  Markasðsstofu Vesturlands, Matís, Náttúrustofu Vesturlands og Samtök atvinnulífsins.

Á sviði  orkumála verður  hvatt til þess að  leita allra leiða til þess að lækka raforkuverð og halda áfram rannsóknum og nýtingu jarðvarma. Lækkun orkureikninga heimila og fyrirtækja er eitt mesta hagsmunamála  Snæfellinga. Til þess að ná þeim markmiðum verður staðið við bakið á sveitarfélögunum og fyrirtækjum í viðræðum þeirra við ríkisvaldið og orkufyrirtækin. Gera verður kröfu til þess annars vegar að orkufyrirtæki og hins vegar ríkissjóður leggi sitt að mörkum til þess að hin „köldu svæði“ fái stuðning vegna  óviðunandi orkuverðs.

Þá er það vilji stjórnar Þróunarfélagsins  að vinna með þeim sem leita leiða til þess að nýta sjávarorkuna í Breiðafirði til raforkuframleiðslu. Lækkun orkuverðs til heimila og atvinnustarfsemi er einn mikilvægasti þáttur þess að bæta búsetuskilyrðin á svæðinu.

Það er mat forsvarsmanna þróunarfélagsins að nýrra atvinnutækifæra sé að leita með öflugri rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna ekki síst í matvælaframleiðslu,  með aukinni ferðaþjónustu og má þar serstaklega nefna menningar og heilsutengda ferðaþjónustu, með eflingu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og friðlands á svæðinu, með stofnun Hollvinasamtaka Þjóðgarðsins, með afmörkun Jarðvangs Snæfellsness (Snæfellsness Geopark) með sama hætti og Kötlu Jarðvangur hefur verið afmarkaður. Þá verði með viðræðum og samstarfi við Hafrannsóknarstofnun og stofnanir umhverfismála hvatt til þess að huga að umhverfismálum hafs og stranda við Breiðafjörð og Faxaflóa. Þróunarfélagið veiti landeigendum og öllum þeim sem huga að nýtingu vatnsauðlindarinnar stuðning og ráðgjöf á þeim sviðum sem félagið hefur aðgang að.

Allar atvinnugreinar hljóta að stefna að  markaðsetningu framleiðslu sinnar og þjónustu  í ljósi þess að  Snæfellsnes er  vottað og vistvænt samfélag samkvæmt Earth Check vottunarkerfinu sem hefur góðu heilli verið staðfest.

Að lokum er vert að  minna á það sem m.a. segir í stofnsamþykktum félagsins um markmið og leiðir félagsins.

„ Efna til samstarfs við mennta-, rannsókna- og tæknistofnanir sem eflt getur og aukið gildi verkefna á vegum félagsins. Samstarfið verði byggt á sérstökum sáttmála til sóknar og eflingar mennta- og rannsóknarstofnana á Snæfellsnesi með samningi milli atvinnulífs og opinberra aðila.“

Það er von okkar sem vinnum á vettvangi Þróunarfélags Snæfellinga ehf. að okkur megi takast það ætlunarverk okkar að bæta búsetuskilyrði á Snæfellsnesi í þágu þeirra sem hér lifa og starfa og  vilja búa í framtíðinni og njóta alls þess sem Snæfellsness hefur upp á að bjóða.

Sturla Böðvarsson
Höfundur er framkvæmdastjóri Þróunarfélags Snæfellinga ehf.

Posted in: Fréttir     (0 comments)

Deila